Reglur dómstólasýslunnar nr. 13/2018
LEIÐBEINANDI

 

1. gr.
Almennt.

Eftirfarandi reglur gilda um sektarfjárhæð og lengd ökuréttarsviptingar í málum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Miðað skal við að sektarfjárhæð og lengd ökuréttarsviptingar skuli jafnan vera í lágmarki hvers flokks fyrir sig og ekki stigvaxandi eftir magni fíkniefna frekar en hér er miðað við.

2. gr.
Sektarfjárhæð og lengd ökuréttarsviptingar.

Finnist lítið magn ávana- og fíkniefna í blóði ökumanns má gefa ákærða kost á að ljúka málinu með ökuréttarsviptingu að lágmarki í 4 mánuði auk greiðslu sektar að upphæð 70.000 krónur.

Finnist mikið magn ávana- og fíkniefna í blóði ökumanns má gefa ákærða kost á að ljúka málinu með ökuréttarsviptingu að lágmarki í 1 ár auk greiðslu sektar að upphæð 140.000 krónum.

Finnist ávana- og fíkniefni aðeins í þvagi ökumanns má gefa ákærða kost á að ljúka málinu með ökuréttarsviptingu að lágmarki í 3 mánuði auk greiðslu sektar að upphæð 70.000 krónum.

Finnist fleiri en ein tegund ávana- og fíkniefna í blóð ökumanns skal leggja til grundvallar það efni sem hefur hæst mæligildi.

Heimilt er að gefa ákærða kost á að ljúka máli með því að sæta ökuréttarsviptingu umfram lágmark ef hann hefur jafnframt brotið gegn öðrum ákvæðum umferðarlaga með akstri sínum, allt eftir eðli þess brots eða þeirra brota.

Nú hefur ákærði einu sinni áður brotið gegn 45. gr. eða 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 og má þá gefa honum kost á að ljúka máli með ökuréttarsviptingu að lágmarki 2 ár auk greiðslu sektar að lágmarki 100.000 krónum, sé um lítið magn í blóði að ræða eða efni finnst aðeins í þvagi, en 200.000 krónum sé um mikið magn að ræða.


3. gr.
Mörk á milli lítils og mikils magns ávana- og fíkniefna.

Eftirfarandi gildir um mörk á milli lítils og mikils magns ávana- og fíkniefna sem finnst í blóði ökumanns:
Amfetamín:
Lítið magn:         Allt að 170 ng/ml í blóði
Mikið magn:       170 ng/ml í blóði eða meira
Tetrahýdrókannabínól (kannabis):
Lítið magn:         Allt að 2 ng/ml í blóði
Mikið magn:       2 ng/ml í blóði eða meira
MDMA:
Lítið magn:         Allt að 220 ng/ml í blóði
Mikið magn:       220 ng/ml í blóði eða meira
Kókaín:
Lítið magn:         Allt að 30 ng/ml í blóði
Mikið magn:       30 ng/ml í blóði eða meira.


4. gr.
Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
18. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.