Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2018


I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Reglur þessar taka fyrst og fremst til þess þegar skýrsla er tekin fyrir dómi af vitni, sem er yngra en 15 ára. Þær eiga hins vegar ekki við þegar lögregla tekur skýrslu af vitnum eða aflar gagna eða upplýsinga frá þeim, sbr. þó 12. gr. Samkvæmt reglum þessum nær hugtakið vitni einnig til brotaþola eftir því sem við á. 


2. gr.

Ákvæði II. og III. kafla gilda almennt um skýrslutöku fyrir dómi af vitni, yngra en 15 ára, hvort sem ákæra hefur verið gefin út eða ekki. Ákvæði IV. kafla eiga að auki við þegar skýrsla er tekin fyrir dómi af vitni, yngra en 15 ára, meðan á rannsókn máls stendur hvort sem um er að ræða brotaþola eða annað vitni, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála.


II. KAFLI
Aðstæður við skýrslutöku.
3. gr.

Skýrsla af vitni, sem er yngra en 15 ára, skal jafnan tekin á dómþingi fyrir luktum dyrum, sbr. a. lið 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála.


4. gr.

Dómari getur ákveðið að skýrslutaka fari fram annars staðar en í dómsal ef það þykir æskilegt með tilliti til hagsmuna barnsins, sbr. 9. gr. laga um meðferð sakamála. 


5. gr.

Þegar skýrslutaka fer fram annars staðar en í dómsal skal skýrsla tekin í sérútbúnu húsnæði ef þess er nokkur kostur.

Salurinn eða herbergið, þar sem skýrslutakan sjálf fer fram, skal vera innréttaður og búinn húsgögnum og leikföngum með það fyrir augum að barninu, sem gefur skýrslu, líði sem best. Þar skal og vera til staðar búnaður til að unnt sé að taka skýrsluna upp í hljóði og mynd.

Þegar skýrsla er tekin skal vera búnaður sem tryggir að þeir sem ekki eru viðstaddir sjálfa skýrslutökuna en eiga rétt á að fylgjast með henni, sbr. 10. gr., geti gert það um leið og hún fer fram.


6. gr.

Þegar skýrslutaka fer fram annars staðar en í dómsal, en sérútbúið húsnæði er ekki fyrir hendi, skal engu síður kappkostað að fullnægja þeim kröfum um aðbúnað og aðrar aðstæður við skýrslutöku sem gerðar eru í 5. gr.


III. KAFLI
Almenn ákvæði um tilhögun skýrslutöku.
7. gr.

Ef skýrsla er tekin af vitni eftir að ákæra hefur verið gefin út skal skýrslutaka fara fram í tengslum við aðalmeðferð máls þótt skýrsla sé tekin annars staðar en í húsnæði hlutaðeigandi dómstóls.


8. gr.

Dómari setur þinghald og ráðgast eftir atvikum við ákæranda, verjanda og réttargæslumann brotaþola áður en vitni kemur fyrir dóm til skýrslugjafar.

Dómari leiðbeinir vitni um skyldu hans sem vitnis til að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan, sem máli skiptir, og skýrir fyrir því ábyrgð þess í því sambandi, allt eftir aldri og þroska barnsins. 


9. gr.

Dómari getur kvatt kunnáttumann, t.d. sérþjálfaðan sálfræðing eða lögreglumann, sér til aðstoðar við skýrslutöku.

Dómari stýrir skýrslutöku og skal hún framkvæmd á eins varfærinn hátt og unnt er, þó með það að leiðarljósi að fá vitni til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir. Þótt kunnáttumaður sé til kvaddur getur dómari ákveðið að spyrja vitni sjálfur með aðstoð hans. Dómari getur einnig falið kunnáttumanninum að spyrja vitni beint og jafnframt lagt fyrir hann að spyrja barnið tiltekinna spurninga.

Dómara er rétt að leggja fyrir vitni þær spurningar sem ákærandi eða verjandi óska. Ef þeir eru viðstaddir skýrslutöku getur dómari enn fremur gefið þeim kost á að spyrja barnið beint. Þá getur réttargæslumaður óskað þess að dómari spyrji vitni tiltekinna spurninga og jafnframt getur dómari heimilað honum að spyrja barnið beint.

Að öðru leyti gilda um skýrslutökuna ákvæði 122. gr. laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.


10. gr.

Ef dómari telur að nærvera ákæranda, ákærða og verjanda hans geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess getur hann ákveðið að þeir víki úr þingsal eða þeim sal eða herbergi þar sem skýrslutaka fer fram. Því aðeins er hægt að grípa til þessa úrræðis að séð verði til þess að ákærandi, ákærði og verjandi geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram, sbr. 3. mgr. 5. gr. Réttargæslumaður brotaþola á ávallt rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku af brotaþola. 


11. gr.

Ef gripið hefur verið til þess úrræðis, sem mælt er fyrir um í 10. gr., er rétt að dómari geri hlé á skýrslutöku svo að hann geti eftir atvikum ráðgast við ákæranda, verjanda og réttargæslumann brotaþola, að vitni fjarstöddu, um framhald skýrslutökunnar, þar á meðal leitað eftir því hvort þeir óski að leggja tilteknar spurningar fyrir það. 


IV. KAFLI
Sérstök ákvæði um tilhögun skýrslutöku á rannsóknarstigi.
12. gr.

Lögregla sér um að rannsaka mál og afla allra tiltækra gagna og upplýsinga, þar á meðal frá vitnum, til þess að ákæranda sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli mann til sakar.


13. gr.

Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri þegar rannsókn hefst ber lögreglu skv. a. lið 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála, þegar hún telur tímabært, að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af því eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögunum og þessum reglum.

Í öðrum tilvikum er lögreglu heimilt, en ekki skylt, að leita atbeina dómara til að taka skýrslu af vitni á rannsóknarstigi enda séu skilyrði b. eða c. liðar 1. mgr. 59. gr. fyrir hendi.

Beiðni um skýrslutöku skal að jafnaði vera skrifleg og skulu fylgja henni öll nauðsynleg gögn og upplýsingar um málið, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð sakamála. Að öðru leyti skal dómari leysa úr kröfunni samkvæmt XV. kafla laganna.


14. gr.

Þegar skýrsla er tekin fyrir dómi skv. 13. gr. er lögreglu ávallt heimilt að vera viðstödd skýrslutöku nema dómari telji að nærvera hennar geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Getur dómari þá gripið til þess úrræðis, sem fyrir er mælt í 10. gr., enda verði séð til þess að lögregla geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og haft nauðsynlegt samráð við ákæranda meðan á henni stendur.


15. gr.

Dómara ber að tilkynna ákæranda, verjanda sakbornings og réttargæslumanni brotaþola um það með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær skýrslutaka af vitni á rannsóknarstigi fer fram svo að þeir geti verið viðstaddir hana.

Sakborningur á rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku ásamt verjanda sínum nema dómari telji að nærvera hans geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Skal dómari þá sjá til þess, ef þess er kostur, að sakborningur og verjandi geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 10. gr.


16. gr.

Dómara ber að sjá til þess að skýrsla vitnis á rannsóknarstigi verði tekin upp í hljóði og á mynd til afnota á síðari stigum málsmeðferðar.


17. gr.

Að lokinni skýrslutöku sendir dómari lögreglu endurrit úr þinghaldinu auk eintaks í hljóði og mynd af skýrslu vitnis, sbr. 16. gr.


V. KAFLI
Reglur um tilhögun skýrslutöku af vitni skv. 123. gr. laga um meðferð sakamála.
18. gr.

Tilhögun skýrslu samkvæmt 1. mgr. og 3. ml. 2. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála fer eftir 15. gr. reglnanna eftir því sem við á. 


VI. KAFLI
Heimild og gildistaka.
19. gr.

Reglur þessar eru settar eru með heimild í 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
4. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.