Reglur dómstólasýslunnar nr. 7/2018
LEIÐBEINANDI


1. gr.
Einkamál.

Miða skal við að frestir í einstaka einkamáli verði sem hér segir:
a. máli skal að jafnaði ekki frestað oftar en tvisvar sinnum á reglulegu dómþingi að ósk stefnda til að leggja fram greinargerð í máli.
b. dómari boði til fyrstu fyrirtöku í máli eigi síðar en tveimur vikum eftir úthlutun.
c. máli verði að jafnaði ekki frestað oftar en tvisvar sinnum eftir úthlutun til gagnaöflunar og/eða sáttaumleitana.
d. fari annar hvor aðili fram á að dómkvaddir verði matsmenn í málinu skal lagt fyrir matsmenn að ljúka mati innan sex vikna frá dómkvaðningu og leggja fyrir aðila máls að sjá til þess að svo     verði.
e. að jafnaði líði að hámarki fjórir mánuðir frá fyrstu fyrirtöku í máli eftir að máli hefur verið úthlutað til dómara þar til aðalmeðferð hefst.
f. dragist dómsuppsaga fram yfir fjórar vikur skal aðilum fyrirfram gert aðvart um það og boðað hvenær ráðgert sé að dómsuppsaga fari fram.
g. dómari skal tilkynna það til dómstjóra ef dómsuppsaga dregst fram yfir átta vikur.
h. ágreiningsmálum um forsjá barna eða forjársviptingu skal hraðað sérstaklega.
i. málsmeðferðartími verði að jafnaði innan við sex mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.


2. gr.
Sakamál.

Miða skal við að frestir í einstaka sakamáli verði sem hér segir:
a. fyrirkall skal gefið út innan tveggja vikna frá úthlutun máls.
b. máli verði að jafnaði ekki frestað nema einu sinni að ósk ákærða til að taka ákvörðun um hvort hann haldi uppi vörnum í því.
c. aðalmeðferð skal að jafnaði hefjast innan sex vikna frá þingfestingu máls.
d. ef ákærði sætir gæsluvarðhaldi þegar máli er úthlutað er að jafnaði rétt að þingfesta mál innan viku frá úthlutun án útgáfu fyrirkalls. Í því tilfelli skal að því stefnt að aðalmeðferð fari fram svo fljótt sem kostur er og innan tveggja vikna frá úthlutun, nema sérstaklega standi á.
e. kynferðisbrotamálum og málum þar sem ákærði sætir farbanni skal hraða sérstaklega.
f. málsmeðferðartími skal að jafnað vera innan við þrír mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.


3. gr.
Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.