Loftslagsstefna Dómstólasýslunnar

Framtíðarsýn

 
Dómstólasýslan stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Dómstólasýslan vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Yfirmarkmið

Fram til 2030 mun Dómstólasýslan draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2019. Dómstólasýslan mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2021.

Gildissvið

Stefnan tekur til alls reksturs stofnunarinnar og varðar alla starfsmenn hennar. Hún nær m.a. til samgangna, innkaupa,orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu. Þannig er stefnt að því að draga úr mengun og úrgangi eins og kostur er, stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu og hvetja til nýtingar vistvænna samgöngumáta. 

Eftirfylgni

Stefnunni er fylgt eftir með innleiðingu grænna skrefa í rekstri dómstólasýslunnar sem allir starfsmenn stofnunarinnar taka þátt í.
Stefnan er rýnd á hverju ári samhliða annarri stefnumótunarvinnu dómstólasýslunnar og markmið hennar uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað í rafrænu fréttabréfi dómstólanna.

Stefnan er samþykkt af framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar í desember 2021.