Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2022
Tóku gildi 1. janúar 2023

 

1. gr.

Reglur þessar gilda um afhendingu og aðgang málsaðila, brotaþola og lögmanna þeirra, ákæruvaldsins, verjenda og lögmanna málsaðila í einkamálum að hljóð- og myndupptökum samkvæmt 4. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 202. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og 3. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Reglurnar gilda einnig um tilfærslu hljóð- og myndupptaka á milli dómstiga.

2. gr.

Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi getur málsaðili, hvort heldur sem er í einkamáli eða sakamáli, fengið, svo fljótt sem auðið er, að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði fyrir dómi á starfstöð hlutaðeigandi dómstóls. Saksóknari, verjandi og lögmaður málsaðila í einkamáli njóta sama réttar sem og brotaþoli og sá sem gætir hagsmuna hans, sé þörf á því til þess að geta gætt hagsmuna brotaþola.

Innan sama tímamarks skal afhenda embætti ríkissaksóknara, verjanda, lögmanni málsaðila í einkamáli eða málsaðila í einkamáli sem ekki nýtur aðstoðar lögmanns hljóðupptökur sé það nauðsynlegt vegna áfrýjunar. Sama á við um þann sem gætir hagsmuna brotaþola sé það nauðsynlegt vegna hagsmunagæslunnar. Aðeins skal afhenda hljóðskrá þótt framburður hafi verið tekinn upp í hljóði og mynd. Hljóðupptökur skal afhenda rafrænt með öruggum hætti.

Eftir þann tíma sem mælt er fyrir um í 1. mgr. má verða við ósk málsaðila, saksóknara, verjanda og lögmanns málsaðila í einkamáli um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur eða fá afhent afrit hljóðupptöku, ef sérstakar ástæður mæla með því svo sem vegna beiðni um endurupptöku máls eða málskots til Mannréttindadómstóls Evrópu. Einnig má verða við slíkri ósk brotaþola og þess sem gætir hagsmuna hans ef þörf er á því til þess að hægt sé að gæta hagsmuna brotaþola.

3. gr.

Beiðni um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur og fá hljóðupptökur afhentar skal beina til viðkomandi dómstóls. Beiðnin skal vera skrifleg og í henni skal tilgreint í hvaða tilgangi beiðnin sé sett fram.

4. gr.

Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi tekur dómari, eða dómsformaður í fjölskipuðum dómi, ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.

Telji dómari, eða eftir atvikum dómsformaður, óheimilt eða óskylt að verða við slíkri ósk kveður hann upp úrskurð um það ef þess er krafist, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.

Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir héraðsdómi tekur dómstjóri ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum. Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir Landsrétti tekur forseti Landsréttar slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.

5. gr.

Sá sem fær hljóðupptöku afhenta skal undirrita yfirlýsingu um trúnað á staðlað eyðublað þess dómstóls sem afhendir honum upptökuna. Er honum óheimilt að afhenda öðrum upptökuna, fjölfalda hana eða birta opinberlega. Þó er heimilt að afhenda öðrum upptökuna sé það nauðsynlegt vegna uppritunar í tengslum við áfrýjun máls enda ábyrgist viðkomandi trúnað við uppritun upptökunnar.

Lögmanni sem fær upptöku afhenta er auk þess heimilt að veita skjólstæðingi sínum aðgang að hljóðupptökunni til að hlusta á hana.

                                                                                                                              6. gr.             

Þegar máli hefur verið áfrýjað skal sá dómstóll, þar sem mál var rekið, verða við beiðni ríkissaksóknara um afhendingu á upptökum í viðkomandi máli endurgjaldslaust. Skrárnar skulu sendar ríkissaksóknara rafrænt með öruggum hætti.

7. gr.

Lögmenn brotaþola í sakamálum og lögmenn málsaðila, eða eftir atvikum aðilar sjálfir, í einkamálum skulu greiða fyrir afrit af hljóðupptöku eftir reglum laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Verjandi ákærða í sakamálum fær eftirgerð af hljóðupptökum endurgjaldslaust.

8. gr.

Allar upptökur skulu færðar á milli dómstiga með rafrænum hætti þegar þörf krefur með því að færa gögnin á milli aðgangsstýrðra mappa í miðlægum kerfum sem viðkomandi dómstólar hafa aðgang að.

Afritun á upptökum á milli dómstiga skal miða við hljóð- og myndskrár á upprunalegu sniði úr FTR-kerfi.

Hver héraðsdómstóll skal skilgreina þá starfsmenn sem eru ábyrgir fyrir því að afrita upptökur yfir á drif sem Landsréttur hefur aðgang að (U-drif) þegar dómsniðurstöðu hefur verið skotið til Landsréttar. Skulu þeir ekki vera fleiri en þörf er á og skulu þeir gæta þess að upprunalegu hljóðskrárnar séu áfram aðgengilegar viðkomandi héraðsdómstól hjá vörsluaðila.

9. gr.

Héraðsdómur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Landsréttar og Landsréttur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Hæstaréttar.

Í einkamálum skal lögmaður áfrýjanda, eða eftir atvikum áfrýjandi sjálfur, annast að láta rita upp hljóðupptökur.

10. gr.

Við uppritun skal þess gætt að setja inn upplýsingar um tímasetningu á skýrslutökudegi (klukkustund innan dags, mínútu og sekúndu) á spássíu endurrits ekki sjaldnar en einu sinni á hverri blaðsíðu í endurriti.

11. gr.

Birting á hljóð- og myndupptökum af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast getur varðað sektum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008.

12. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. janúar 2023 og falla þá úr gildi reglur nr. 15/2018 um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa frá héraðsdómstólunum. 


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar

10. nóvember 2022

 

Sigurður Tómas Magnússon

formaður stjórnar dómstólasýslunnar