Reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2023
LEIÐBEINANDI
1. gr.
Almennt
Dómari tekur ákvörðun um þóknun til skiptastjóra og greiðslu útlagðs kostnaðar vegna kröfu um atvinnurekstrarbann samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 133/2022, í samræmi við reglur þessar. Þóknun skiptastjóra samkvæmt 2. og 3. gr., og útlagður kostnaður samkvæmt 4. gr., greiðist úr ríkissjóði.
2. gr.
Þóknun skiptastjóra þegar krafa fær ekki efnislega meðferð
Hafni dómari því að taka kröfu um atvinnurekstrarbann til efnislegrar meðferðar skal ákveða þóknun skiptastjóra sem nemur tímagjaldi fyrir tvær til þrjár vinnustundir, sbr. 3. gr., að teknu tilliti til umfangs beiðninnar og þeirrar vinnu sem ætla má að skiptastjóri hafi lagt af mörkum.
3. gr.
Þóknun skiptastjóra þegar krafa er tekin til efnislegrar meðferðar
Verði krafa um atvinnurekstrarbann tekin til efnislegrar meðferðar skal þóknun miðast við sama tímagjald og fram kemur á hverjum tíma í reglum dómstólasýslunnar um málsvarnarlaun eða þóknun til verjenda og þóknun réttargæslumanna svo og hæfilegan fjölda vinnustunda að mati dómara. Við ákvörðun um tímafjölda er dómara rétt að líta til réttmætrar sundurliðaðrar tímaskýrslu skiptastjóra.
4. gr.
Útlagður kostnaður
Dómari ákveður hvaða útlagður kostnaður sem stofnað hefur verið til vegna kröfu um atvinnurekstrarbann greiðist úr ríkissjóði. Við mat á réttmæti kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.
5. gr.
Gildistaka og lagastoð
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 188. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 133/2022, og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
23. mars 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.