Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2024
LEIÐBEINANDI
1. gr.
Gildissvið
Reglur þessar gilda um fjárhæðir skiptatrygginga og skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum eftir lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
2. gr.
Skiptatryggingar
Ef gögn með gjaldþrotaskiptabeiðni taka ekki af tvímæli um að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar, ef krafan yrði tekin til greina, skal héraðsdómari krefja þann sem hefur gert hana um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaðinum áður en krafan verður tekin fyrir, enda hafi henni ekki verið vísað á bug skv. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991. Héraðsdómari skal ákveða tiltekinn skamman frest til að leggja fram tryggingu og tilkynna það hlutaðeiganda á sannanlegan hátt, en komi trygging ekki fram innan frestsins skal krafan skoðast afturkölluð þá þegar. Rísi ágreiningur um skyldu til að setja tryggingu eða fjárhæð hennar getur sá sem er krafinn um hana krafist fyrirtöku málefnisins á dómþingi og úrskurðar héraðsdómara um það. Lengist þá frestur til að setja tryggingu meðan málefnið er óútkljáð, en héraðsdómari kveður upp úrskurð sinn án þess að aðrir þurfi að eiga kost á að tjá sig um málefnið en sá sem er krafinn tryggingar, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991.
Ef þörf þykir á að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar af aðgerðum við undirbúning og gerð nauðasamnings, skv. 4. tölulið 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991, kostnaðar við opinber skipti á dánarbúum skv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 20/1991 og opinber skipti til fjárslita milli hjóna o.fl. skv. 4. mgr. 101. gr. sömu laga, er rétt að fjárhæð hennar sé 500.000 krónur.
Trygging fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991, verður að jafnaði ákveðin:
a. 280.000 krónur þegar um er að ræða bú einstaklings
b. 450.000 krónur þegar um er að ræða bú lögaðila sem ekki fellur undir c-lið.
c. 1.000.000 krónur þegar um er að ræða bú lögaðila og stjórn hans óskar sjálf eftir skiptum eða þegar ætla má, með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum, að lögaðilinn hafi verið í mjög umfangsmiklum atvinnurekstri. Til viðmiðunar skal líta til þess hvort lögaðilinn hafi verið með fleiri en fimm starfsmenn á launaskrá og yfir 150.000.000 króna árlega veltu.
3. gr.
Skrá yfir þau sem óska eftir skipun sem skiptastjórar eða umsjónarmenn
Við hvern héraðsdómstól skal haldin skrá yfir þau sem óskað hafa eftir að verða skipuð skiptastjórar eða umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Skal skráin uppfærð reglulega.
Í þessa skrá skulu m.a. færðar eftirfarandi upplýsingar:
a. Dagsetning umsóknar um að komast á listann.
b. Upplýsingar um hæfi til að gegna skiptastjórn, þ. á m. málflutningsréttindi, nám, gilda ábyrgðartryggingu vegna starfans, yfirlýsingu um að viðkomandi hafi ekki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.
c. Í hvaða búum (nægir að tilgreina málanúmer G-máls) hvert þeirra hefur fengið skipun sem skiptastjóri og hvenær.
d. Í hvaða flokki hvert umræddra búa eru.
e. Hvenær tilkynning um skiptalok í búi bárust.
f. Hvort engar eða ófullnægjandi skýringar hafi borist frá skiptastjóra við fyrirspurnum frá dómstóli vegna dráttar á skiptalokum.
g. Kvartanir eða athugasemdir við framkvæmd skipta á búi og hvers eðlis þær eru.
h. Aðrar upplýsingar sem skipta máli varðandi störf skiptastjóra og skipun þeirra sem skiptastjóra í fleiri búum.
Skrár allra dómstóla skulu vera aðgengilegar á innra neti dómstólanna. Dómstólasýslan stefnir að því að útbúa sameiginlega skrá um skipun skiptastjóra á árinu 2024.
4. gr.
Skipun skiptastjóra og umsjónarmanns
Þegar héraðsdómari skipar skiptastjóra eða umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum skal m.a. litið til eftirfarandi atriða:
a. Að lögmenn og aðrir lögfræðingar sem til greina koma að verði skipuð uppfylli öll skilyrði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
b. Að verkefnum verði eftir því sem kostur er skipt jafnt á milli þeirra sem óskað hafa eftir að vera skipuð.
c. Hvernig reynsla hefur fengist af störfum viðkomandi við skiptastjórn, þar með talið hvort dráttur sem ekki hefur verið skýrður með fullnægjandi hætti hafi orðið á því að ljúka skiptum á búum eða opinberum skiptum af öðru tagi þar sem viðkomandi hefur verið skiptastjóri eða hvort borist hafa kvartanir yfir störfunum sem ekki verður vísað á bug sem haldlausum.
d. Hvort viðkomandi hafi aflað sér sérstakrar þekkingar á þeim sviðum sem koma að notum við þessi störf.
e. Hvort viðkomandi hafi gilda starfsábyrgðartryggingu.
f. Að jafnaði skal ekki skipa þau skiptastjóra sem ekki hafa tilkynnt lok á skiptum í fjórum eða fleiri búum sem þau hafa verið skipuð skiptastjóri í. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í einu eða fleirum þessara búa og skipa þá viðkomandi skiptastjóra í sama fjölda búa.
g. Að jafnaði skal ekki skipa þau skiptastjóra sem hafa haft eitt eða fleiri bú til skipta í tvö ár eða meira. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í þessum búum.
h. Ef alvarlegar aðfinnslur, sem þykja hafa verið á rökum reistar, hafa verið gerðar við störf skiptastjóra verður viðkomandi ekki aftur skipaður sem skiptastjóri a.m.k. ekki næstu þrjú ár.
i. Við skipun skiptastjóra er rétt að gæta jafnréttis milli kynja.
Þegar búum samkvæmt c-lið 3. mgr. 2. gr. er úthlutað skal jafnframt litið til eftirfarandi atriða:
a. Að jafnaði sé skipaður sem skiptastjóri lögmaður með réttindi til að flytja mál fyrir Landsrétti.
b. Að viðkomandi hafi umtalsverða og farsæla reynslu af störfum sem skiptastjóri en í því felst m.a. að hafa lokið skiptum á a.m.k. 10 búum, ekki farið á svig við ákvæði laga nr. 21/1991 og ekki hafi komið fram alvarlegar aðfinnslur um störf viðkomandi við skiptastjórn sem ekki hefur verið vísað á bug sem haldlausum.
c. Að jafnaði skal ekki skipa lögmann skiptastjóra til að skipta slíku búi meðan viðkomandi hefur ekki tilkynnt skiptalok í tveimur eða fleiri slíkum búum eða í fjórum búum alls. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í þessum búum.
Verði því við komið skal úthluta fjórum búum í einu til sama skiptastjóra þegar um er að ræða bú sem falla undir a- eða b-lið 3. mgr. 2. gr.
5. gr.
Upplýsingagjöf
Í ársbyrjun hvert ár skal dómstólasýslan birta upplýsingar um hversu mörgum búum hverjum skiptastjóra hefur verið falið að skipta á árinu hjá hverjum og einum héraðsdómstól og samtals á þeim öllum svo og upplýsingar um það í hversu mörgum búum hver skiptastjóri hefur ekki tilkynnt skiptalok fyrir árslok.
6. gr.
Eftirlit með störfum skiptastjóra
Þegar bú hefur verið undir skiptum í eitt ár skal héraðsdómari kalla eftir skýringum frá skiptastjóra á því hvers vegna skiptum hafi ekki verið lokið og óska eftir upplýsingum um það hvenær hann reikni með því að skiptum verði lokið.
Verði skiptastjóri ekki við beiðni héraðsdómara um skýringar á drætti á skiptum eða að héraðsdómari meti skýringar skiptastjóra á drættinum og upplýsingar um fyrirhuguð skiptalok ófullnægjandi skal hann boða skiptastjóra á fund í samræmi við 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 og færa niðurstöður fundar í skrá samkvæmt 3. gr. og líta til þeirra við skipun skiptastjóra.
7. gr.
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. desember 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.