Reglur dómstólasýslunnar nr. 6/2018

 

1. gr.

Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt við sama dómstól eða án fasts sætis við tiltekinn dómstól, enda standi ákvæði 5. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla því ekki í vegi að fengið verði fyrir hann fast dómarasæti á öðrum vettvangi.

Héraðsdómari skal beina skriflegri og rökstuddri ósk sinni um að skipta um starfsvettvang til dómstólasýslunnar.

Reglur þessar taka ekki til ákvarðana dómstólasýslunnar um starfsstöð héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól eða breytinga á starfsstöð þeirra eða verkefnum.

2. gr.

Dómstólasýslan skal leitast við að verða við óskum þeirra héraðsdómara sem rétt eiga á flutningi svo fljótt sem auðið er.
Flutningur dómara milli umdæma skulu að jafnaði fara fram í júlí nema aðstæður krefjist annars.

3. gr.

Áður en dómstólasýslan nýtir þær heimild til þess að flytja héraðsdómara á milli umdæma skal kannað hvort einhver dómari er reiðubúinn að gegna starfi í því umdæmi sem dómara vantar um lengri eða skemmri tíma.

4. gr.

Heimild til að flytja héraðsdómara án samþykkis hans um 6 mánaða tíma skv. 5. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2016 skal að jafnaði ekki beitt til þess að rýma fyrir þeim sem rétt á til flutnings nema í undantekningartilvikum.

Ákvæði þetta tekur ekki til þeirra héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn dómstól.

5. gr.

Þegar tveir eða fleiri héraðsdómarar, sem rétt eiga á að skipta um starfsvettvang, óska flutnings á sama héraðsdómstól og ekki er unnt að verða við óskum beggja skal dómstólasýslan reisa ákvörðum sína á eftirfarandi atriðum:

   a. Lengd starfstíma héraðsdómara á þeim stað sem óskað er flutnings frá eða í starfi héraðsdómara án fasts sætis við tiltekinn dómstól skal ráða.

   b. Héraðsdómari án fasts sætis við tiltekinn dómstól gengur fyrir þeim sem gegnt hefur fastri dómarastöðu hafi þeir gegnt stöðum sínum jafn lengi.

   c. Skeri reglur í a. eða c. liðar ekki úr skal litið til prófaldurs, lífaldurs, fyrri óska um flutning sem ekki hefur verið orðið við, og heilsufars- eða fjölskylduaðstæðna.

Héraðsdómara sem hagsmuni hefur af ákvörðun samkvæmt þessari grein skal gefinn kostur á að mæta á fund dómstólasýslunnar til að koma að sjónarmiðum sínum eða senda dómstólasýslunni athugasemdir sínar áður en ákvörðun er tekin.

Ekki þarf að láta rökstuðning fylgja ákvörðun samkvæmt þessari grein en skylt er að veita eftirfarandi rökstuðning ef þess er krafist.

6. gr.

Eigi héraðsdómari sem ekki hefur átt fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól kost á föstu sæti við tiltekinn dómstól en hafnar því hefur það ekki áhrif á viðmiðunarstarfstíma skv. a. lið 1. mgr. 5. gr.

Taki héraðsdómari hins vegar slíku boði sem um er rætt í 1. mgr., þótt starfsvettvangurinn sé ekki í samræmi við óskir hans, skal viðmiðunartími skv. a. lið 1. mgr. 5. gr. miðast við hvenær hann hóf störf á nýjum starfsvettvangi.

7. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.