Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2025
LEIÐBEINANDI

 

 
1. gr.
Gildissvið
 
Reglur þessar taka til stefnu og greinargerða til héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar í málum sem rekin eru eftir ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þær taka einnig til samsvarandi skjala í dómsmálum sem rekin eru eftir sérlögum sem vísa til þess að lög um meðferð einkamála gildi að ákveðnu leyti um málsmeðferðina.

 

2. gr.
Markmið


Markmiðið með setningu þessara leiðbeinandi reglna er að stuðla að því að stefnur og greinargerðir í dómsmálum á öllum dómstigum séu hnitmiðaðar, gagnorðar og skýrar en ekki of langar og auka þannig skilvirkni við meðferð dómsmála.


3. gr.
Hámarkslengd stefnu og greinargerðar


Lýsing málsatvika, málsástæðna og lagaraka í stefnu til héraðsdóms skal ekki vera lengri en sakarefni og umfang máls gefa tilefni til. Lýsingin skal vera hnitmiðuð og gagnorð og að jafnaði ekki lengri en 3.500 orð (þ.e. um 8 blaðsíður).


Sama hámarkslengd á við um greinargerð fyrir héraðsdómi en umfjöllun um formhlið máls samhliða efnisvörnum getur þó réttlætt lengri greinargerð.

Í sérstaklega flóknum eða sérstaklega umfangsmiklum málum getur lýsing málsatvika, málsástæðna og lagaraka í stefnu og greinargerð fyrir héraðsdómi verið allt að 7.500 orð (þ.e. um 18 blaðsíður) eða í algjörum undantekningatilvikum allt að 10.000 orð (þ.e. um 24 blaðsíður).

Sömu viðmið og rakin eru í 1. til 3. mgr. eiga við um greinargerðir aðila fyrir Landsrétti og Hæstarétti.



4. gr.
Aðgreining málsatvikalýsingar frá málsástæðum


Í þeim stefnum og greinargerðum sem falla undir 3. gr. skal greina eins skýrlega og kostur er á milli málsatvikalýsingar annars vegar og málsástæðna hins vegar, t.d. með kaflaskiptingu á milli þeirra.

Þegar mörgum málsástæðum er teflt fram til stuðnings málatilbúnaði aðila skal aðgreina þær með skýrum hætti, t.d. með því að tölusetja málsástæðurnar.

 


5. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í g-lið 2. mgr. 15. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. maí 2025.



Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
5. mars 2025

Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.