Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2018
LEIÐBEINANDI


1. gr.

Dómarar mæti stundvíslega til dómþings og gæti þess að það hefjist á boðuðum tíma.


2. gr.

Embættisdómarar beri ávallt skikkjur í þinghöldum í dómsölum. Þess er óskað að málflytjendur geri hið sama við aðalmeðferð mála eða munnlegan málflutning.


3. gr.

Viðstaddir rísi úr sætum þegar dómarar ganga inn og út úr dómsal. 


4. gr.

Sóknaraðili/lögmaður sóknaraðila/ákærandi/réttargæslumaður brotaþola sitji við borð hægra megin í salnum frá dómurum séð en varnaraðili/ákærði/lögmaður varnaraðila/verjandi vinstra megin. Málflytjendur sitji nær dómaraborði, en umbjóðendur þeim við hlið.


5. gr.

Dómþing skal sett og því slitið með afgerandi hætti, t.d. hamarshöggi.


6. gr.

Dómari/dómsformaður geri kunnugt hvaða mál á að taka fyrir.


7. gr.

Ákærandi rísi að jafnaði úr sæti og kynni ákæru og grundvöll hennar í stuttu máli.


8. gr.

Sé unninn eiður eða drengskaparheit, standi allir viðstaddir. 


9. gr.

Málflytjendur flytji mál standandi við ræðupúlt. Þegar ákærði eða aðili fær að gera athugasemdir í lok málflutnings geri hann það einnig frá ræðupúlti. 


10. gr.

Við þá dómstóla, sem dómvörður starfar, skal hann vera dómurum og öðrum þeim, er að máli koma, til aðstoðar í hvívetna, er lýtur að framgangi þinghaldsins. Hann skal sjá um að þeir, sem gefa eiga skýrslur, fái ekki inngöngu í dómsal nema með leyfi dómsformanns.


11. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
4. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.