Leiðbeiningar fyrir vitni

 

 

Vitni ber skylda að verða við boðun um að mæta fyrir dómi og bera vitni. Mæti vitni ekki getur ákærandi óskað eftir að lögregla færi það fyrir dóminn.

Áður en vitni kemur fyrir dóminn getur verið gagnlegt fyrir það að rifja upp atburðarásina, til dæmis með því að skoða minnispunkta, myndir eða annað sem getur hjálpað því við upprifjunina.

Þeir sem eru náskyldir eða tengdir sakborningi geta skorast undan því að bera vitni. Þetta eru maki, foreldrar, systkin, afi og amma, fyrrum maki, tengdaforeldrar og tengdabörn. Þetta getur einnig átt við aðra nákomna, svo sem unnustu og unnusta, sambúðarfólk og fósturforeldra ef dómara virðist samband þeirra við ákærða vera mjög náið. Þetta fólk verður þó að mæta fyrir dómi og greina frá tengslunum.

Í dómsal 
Mikilvægt er að vitni mæti tímanlega í dómhúsið til að geta gengið í dómsalinn á réttum tíma. Mikilvægt er að slökkva á farsíma, ekki nægir að stilla hann á þögn. Vitni er vísað til sætis andspænis dómara sem situr fyrir miðju dómaraborði og stýrir þinghaldinu. Ákærandi situr vinstra megin. Ákærði og verjandi hans sitja hægra megin.

Dómari biður vitni um að gera grein fyrir nafni, kennitölu og heimilisfangi. Dómari getur, ef hann telur lífi, heilbrigði eða frelsi vitnis eða náinna vandamanna stefnt í hættu heimilað nafnleynd. Telji vitni sig eiga rétt á nafnleynd er rétt að það hafi samband við ákæranda fyrir þinghaldið og biðji hann að bera ósk um þetta upp við dómarann.

Dómari áminnir vitnið um skyldu þess til að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir, jafnframt leiðir hann athygli vitnisins að þeirri refsi- og siðferðisábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði. Í undantekningatilfellum kann þess að verða krafist að vitni staðfesti framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti.

Dómari, sem stýrir þinghaldinu, ræður hver spyr vitnið en yfirleitt spyr ákærandi fyrst, nema dómari geri það, og því næst verjandi. Leiði verjandi vitnið spyr hann fyrst og svo ákærandi. Ef dómari verður var við að vitni eigi erfitt með að gefa skýrslu fyrir dómi og vill gera hlé, þá er orðið við því. Vitni hefur hjá sér vatn og getur gert hlé á máli sínu, fengið sér vatnsglas og ef þörf er á, farið frá og jafnað sig.
Skýrslur eru hljóðritaðar og þarf vitnið því að tala skýrt og greinilega og skýra frá öllu sem máli skiptir í réttri tímaröð.

Útlagður kostnaður
Vitni í sakamáli, sem ákærandi hefur boðað fyrir dóm, getur krafist þess að dómari ákveði því greiðslu útlagðs kostnaðar sem hlotist hefur af því að mæta fyrir dóm og þóknun fyrir atvinnu missi eftir atvikum. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis reikninga eða önnur gögn sem sýna fram á kostnaðinn. Ákærandi greiðir vitni útlagðan kostnað.