Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018

Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 og verður fyrst um sinn til húsa að Vesturvör 2 í Kópavogi. Tilkoma Landsréttar hefur í för með sér einar mestu breytingar sem orðið hafa á íslensku réttarkerfi en munnleg sönnunarfærsla verður nú í fyrsta sinn endurmetin fyrir áfrýjunardómstól og Hæstiréttur verður að stefnumótandi æðsta dómstól ríkisins.

Til Landsréttar verður unnt að skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna átta og verða úrlausnir hans endanlegar í flestum málum. Í sérstökum tilvikum og að fengnu leyfi Hæstaréttar Íslands má skjóta niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar. Þann 1. janúar 2018 munu öll sakamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir þann tíma færast til Landsréttar sem mun ljúka meðferð þeirra en Hæstiréttur mun hins vegar ljúka meðferð þeirra einkamála sem hann hefur þegar fengið til meðferðar.

Dómarar Landsréttar verða fimmtán. Hervör Þorvaldsdóttir var kjörin forseti Landsréttar á fundi dómara við Landsrétt 15. júní síðastliðinn og var skipuð dómari við réttinn frá og með 1. ágúst 2017 eins og kveðið er á um í 4. mgr. IV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 50/2016 um dómstóla. Björn L. Bergsson, lögmaður, var skipaður skrifstofustjóri Landsréttar til fimm ára á grundvelli dómstólalaga í kjölfar auglýsingar. Hervör og Björn hafa unnið að undirbúningi starfsemi réttarins frá því þau tóku til starfa. Auk dómara munu tíu manns starfa við réttinn fyrst um sinn, þar af fimm aðstoðarmenn dómara.