Fréttatilkynning frá dómstólasýslunni

Í tilefni af umfjöllun á forsíðu Fréttablaðsins í dag um leka á trúnaðargögnum frá starfsmönnum dómstólanna vill dómstólasýslan gera eftirfarandi athugasemdir:

Í fyrirsögn fréttarinnar er því haldið fram að trúnaðargögnum sé lekið af hálfu starfsmanna dómstólanna en engin dæmi eru nefnd því til stuðnings. Í þeim efnum tekur dómstólasýslan fram að engin tilvik um þetta eru þekkt innan dómstólanna.

Dómstólasýslan vill koma því á framfæri að málaskrárkerfi héraðsdómstólanna gerir ráð fyrir að hægt sé að grípa til öryggisráðstafana til að vernda trúnaðargögn með því að læsa skjölum þannig að þau séu óaðgengileg fyrir óviðkomandi. Aftur á móti er ekki hægt að rekja uppflettingar í málaskrárkerfinu eins og fram kom í frétt blaðsins.

Loks vill dómstólasýslan taka fram að á síðasta ári var boðið út verk við nýsmíði málaskrárkerfis fyrir héraðsdómstólana og er sú vinna þegar hafin. Gert er ráð fyrir innleiðingu nýrrar málaskrár með fullnægjandi öryggisbúnaði fyrir alla héraðsdómstólana 1. desember nk.

Ef frekari upplýsinga er óskað veitir undirrituð Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, þær góðfúslega í síma 432 5010 eða 898 5121.