Traust til dómskerfisins eykst
Nær 47% landsmanna báru mikið traust til dómskerfisins samkvæmt könnun Gallups sem gerð var dagana 16. janúar til 1. mars síðastliðinn. Það er hækkun um 11% frá því á síðasta ári og er mesta traust í garð dómskerfisins frá því mælingar hófust árið 2001.
Fjórðungur aðspurðra sagðist hvorki bera traust né vantraust til dómskerfisins, 20% lítið traust og 3% alls ekkert traust.
Einnig var kannað traust landsmanna á dómstigunum þremur og kom í ljós að Hæstiréttur naut mikils trausts 56% landsmanna á meðan Landsréttur og héraðsdómstólarnir nutu mikils trausts 49%.
Þekking og traust
Eitt að því sem spurt var um í könnuninni var hvort þátttakendur þekktu til starfsemi dómskerfisins og dómstiganna þriggja.
Hlutfall karla sem bera mikið traust til dómskerfisins var 52% á móti 42% kvenna en 39% karla töldu sig þekkja vel til starfseminnar á móti 27% kvenna. Þá var einnig meira traust á dómskerfinu hjá háskólamenntuðum og þegar fjölskyldutekjur voru í hærri kantinum.
Á bilinu 29-36% aðspurðra töldu sig þekkja vel til dómskerfisins og dómstiganna en á bilinu 16%-19% töldu sig þekkja lítið til þess. Velta má fyrir sér hvort það séu góð eða slæm tíðindi að hátt í fimmtungur landsmanna þekki illa til dómskerfisins og þeirra stofana sem falla undir það. Vissulega er það jákvætt að landsmenn hafi ekki þurft að nota þjónustu þess en á sama tíma má spyrja sig hvort vanþekking á dómskerfinu geti orðið til þess að þessi hópur þekki ekki rétt sinn.
Um könnunina
Netkönnun Gallups var gerð dagana 16. janúar til 1. mars 2019. Traustmælingunni var skipt upp í sjö hluta og fékk hver svarandi tvær til 16 stofnanir og því voru á bilinu 729-823 svarendur á bak við hverja stofnun.
Hér má sjá frétt Gallups um könnunina: Heimasíða Gallup