Samráðsfundur með fjölmiðlum
Dómstólasýslan bauð fjölmiðlum til samráðsfundar þriðjudaginn 2. júní sl. þar sem farið yfir nýútkomna skýrslu ríkisendurskoðunar og þær tillögur til úrbóta sem þar komu fram. Þá var rætt um starfsemi dómstólanna í kjölfar samkomubanns á tímum COVID-19 og þau úrræði sem stuðst var við þannig að halda mætti rekstrinum gangandi. Dómstólarnir notuðust m.a. við rafrænar lausnir við sendingu gagna til og frá dómstólunum ásamt því að einstaka fyrirtökur mála fóru fram með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Fjölmiðlamenn lögðu m.a. áherslu á mikilvægi góðs aðgengis að dómstólunum og upplýsingum um þau mál sem þar eru rekin hverju sinni. Þátttakendur frá dómstólasýslu og dómstólum voru Benedikt Bogason formaður stjórnar dómstólasýslunnar og varaforseti Hæstaréttar, Edda Laufey Laxdal, lögfræðingur dómstólasýslunnar, Jón Höskuldsson dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, Kjartan Bjarni Björgvinsson formaður dómarafélags Íslands og héraðsdómari, Ólöf Finnsdóttir framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, Sif Sigfúsdóttir, fræðslustjóri dómstólasýslunnar og Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Blaðamenn frá Fréttablaðinu, Viðskiptablaðinu, Morgunblaðinu, Bylgjunni og Stöð 2 mættu á fundinn.