Opið hús í Héraðsdómi Reykjavíkur á Menningarnótt
Héraðsdómur Reykjavíkur opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi á Menningarnótt og mættu á annað þúsund manns í heimsókn, þáðu kaffi og köku, fylgdust með dagskrá dagsins og skoðuðu sig um í húsinu.
Um þessar mundir er þess minnst að 30 ár eru liðin frá því að héraðsdómstólunum var komið á fót, en lagabreyting í þá veru gekk í gildi 1. júlí 1992. Þar með var að fullu skilið á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds í héraði og settir á fót átta sjálfstæðir héraðsdómstólar um landið. Opna húsið í Héraðsdómi Reykjavíkur er liður í því að halda upp á þessi tímamót.
Dagskráin hófst á því að laganemar frá Háskóla Íslands settu á svið réttarhöld í tveimur mikilvægum málum sem varpa ljósi á réttarþróun sem varð frá því að lögreglustjórn og ýmis önnur framkvæmdarvaldsstörf voru á hendi sömu embættismanna og fóru með dómsvald og þar til að fullu var skilið á milli umboðsvalds og dómsvalds með stofnun héraðsdómstólanna.
Auk réttarhaldanna var boðið upp á leiðsögn um dómhúsið með Pétri Ármannssyni arkitekt sem stiklaði á stóru í stórmerkilegri sögu hússins og tengslum hennar við sögu borgarinnar. Þá tóku aðstoðarmenn dómara og aðrir starfsmenn vel á móti yngri kynslóðinni í dómsal 102 þar sem krakkarnir gátu fræðst um dómskerfið, tekið þátt í spurningakeppni, mátað skikkjur og mundað dómarahamarinn. Þegar dregið var úr lausnum eftir daginn voru það þau Ásdís Eva, Freyja Dögg og Daði Fannar sem unnu og fá senda vinninga fyrir þátttökuna.