Nýr skrifstofustjóri hjá Landsrétti

Forseti Landsréttar hefur skipað Ernu Sigríði Sigurðardóttur í embætti skrifstofustjóra Landsréttar. Embættið var auglýst laust til umsóknar 4. október og alls bárust 17 umsóknir. 

Erna lauk BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2005, meistaraprófi í lögfræði frá sömu deild árið 2007 og meistaraprófi í mannauðsstjórnun frá sama skóla árið 2016. Hún öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2019. Að loknu námi starfaði Erna hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þá starfaði hún sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands á árunum 2008-2016. Á árunum 2017-2024 starfaði Erna sem lögfræðingur í forsætisráðuneytinu en hefur frá október síðastliðnum gegnt stöðu yfirlögfræðings hjá embætti ríkislögreglustjóra.