Nýjar reglur dómstólasýslunnar

Stjórn dómstólasýslunnar hefur samþykkt nýjar leiðbeinandi reglur um hámarkslengd stefnu og greinargerða í einkamálum o.fl. Reglurnar öðlast gildi 1. maí nk.

Markmiðið með setningu reglnanna er að stuðla að því að stefnur og greinargerðir í dómsmálum á öllum dómstigum séu hnitmiðaðar, gagnorðar og skýrar en ekki of langar og auka þannig skilvirkni við meðferð dómsmála.

Reglurnar mæla fyrir um að lýsing málsatvika, málsástæðna og lagaraka í stefnu til héraðsdóms skuli ekki vera lengri en sakarefni og umfang máls gefa tilefni til. Lýsingin skuli vera hnitmiðuð og gagnorð og að jafnaði ekki lengri en 3.500 orð (þ.e. um 8 blaðsíður). Sama hámarkslengd á við um greinargerð fyrir héraðsdómi en umfjöllun um formhlið máls samhliða efnisvörnum getur þó réttlætt lengri greinargerð. Í sérstaklega flóknum eða sérstaklega umfangsmiklum málum getur lýsing málsatvika, málsástæðna og lagaraka í stefnu og greinargerð fyrir héraðsdómi verið allt að 7.500 orð (þ.e. um 18 blaðsíður) eða í algjörum undantekningatilvikum allt að 10.000 orð (þ.e. um 24 blaðsíður). Sömu viðmið eiga við um greinargerðir aðila fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Stjórn dómstólasýslunnar hefur jafnframt samþykkt nýjar leiðbeinandi reglur um ákvörðun málskostnaðar við áritun stefnu í útivistarmáli skv. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Reglurnar öðlast gildi 1. apríl nk. og leysa þá af hólmi gildandi reglur um sama efni. Markmiðið með endurskoðun reglnanna var að samræma betur framkvæmd héraðsdómstólanna þegar kemur að ákvörðun málskostnaðar við áritun stefnu í útivistarmálum.