Traust til allra dómstiga hækkar frá árinu 2024

Traust almennings til Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstóla hefur verið kannað síðastliðin ár að beiðni dómstólasýslunnar. Traustið er mælt samhliða Þjóðarpúlsi Gallup. Spurt hefur verið hversu mikið traust berð þú til Hæstaréttar, Landsréttar, héraðsdómstóla og dómskerfisins.

Samkvæmt könnuninni fjölgar þeim sem bera mikið traust til Hæstaréttar um 4 prósentustig, fara úr 55% í 59%. 16% bera nú lítið traust til Hæstaréttar og fjórðungur (25%) ber hvorki mikið né lítið traust til Hæstaréttar.

Þeim sem bera mikið traust til Landsréttar fjölgar um 6 prósentustig, fara úr 51% í 57%. 15% bera nú lítið traust til Landsréttar og 28% hvorki mikið né lítið.

Þeim sem bera mikið traust til héraðsdómstóla fjölgar mest, eða um 14 prósentustig, fara úr 40% í 54%. 19% svarenda bera nú lítið traust til héraðsdómstóla og 27% svara hvorki né.

Könnunin sýnir auk þess að traust til svonefnds dómskerfis í spurningavagni Gallup 2025 hækkar um 6 prósentustig frá fyrra ári, úr 39% í 45%.

Talsvert fleiri bera þannig meira traust til einstakra dómstiga heldur en dómskerfisins, sem er mun víðara hugtak, þar sem það tengist ýmsum aðilum og stofnunum réttarvörslukerfisins.

Sjá stækkaða mynd af súluriti.

Samanburður öll dómstig og dómskerfið (pdf)